Af jörðu.

(Grein sem fylgdi samnefndri sýningu í Stykkishólmi sumar 2013)

Ég gerði skissur af loðnutorfu sem var að synda inn í vegg fyrir nokkrum árum. Ég sá þær fyrir tilviljun þegar ég var að einbeita mér að sýningunni í Stykkishólmi, og var þá þegar á svipuðum slóðum og þessar blaðsíður í skissubókinni. Berin eru viðbót.

Bæði berin og loðnan eru í huga okkar massi frekar en einstaklingar, og við mælum fitumagn og þyngd í rúmmáli. Við sjáum fyrir okkur velsæld ef fréttir berast af loðnunni, og oftar en ekki virðist óvenjulegt náttúrulegt geðslag bjarga okkar vanstillta fjárlagakerfi. Síldin, loðnan og smugan eru nýleg dæmi. Við sem þjóðfélag virðumst vera rekin áfram af ævintýri, frekar en aga og reglu.

Loðnan, sem eru 76 einstaklingar, stefnir inn í vegginn, kolsvört að lit. Þær eru einskonar svarthol, sem er bæði dularfullt og upphaf hugmynda og stjarnfræðilegra vídda. Berin skapa byggingarfræðilegt litakerfi í svart gapið.

Beinin hennar Stjörnu er þekkt málverk eftir Finn Jónsson, málað 1934. Við Birgir Snæbjörn Birgisson vorum við veiðar í Dölum, þegar við gengum fram á bein hests, sem dró fram þessa mynd í huga okkar á þeirri stundu þegar við gengum fram á þau. Birgir sem var í djúpum þönkum vegna sýningarinnar í Hólminum eins og ég, ákvað að taka beinin með af fjalli. Andstætt minni hugmynd um svartholið, ákvað hann að mála þau hvít, lag eftir lag, og gera þau hlutlæg. Þó þau séu á einhvern hátt hlutlæg, þá draga þau fram minnið um Stjörnu, og frelsun.

Á þennan hátt sameinast verkin okkar í einhverskonar upphafi.

                                                           Helgi Þorgils Friðjónsson.