http://birgirsnaebjorn.com/sites/default/files/_MG_1_0568.pnghttp://birgirsnaebjorn.com/sites/default/files/_MG_2_0567.pnghttp://birgirsnaebjorn.com/sites/default/files/_MG_3_0566.pnghttp://birgirsnaebjorn.com/sites/default/files/_MG_4_0565.pnghttp://birgirsnaebjorn.com/sites/default/files/_MG_5_0564.png
/5

 

Helgafell nr. 269, er vatnslitaður texti úr fundargerðarbók unglingastúkunnar.

Valið var úr fundargerðum bókarinnar og leitast við að hafa stafsetningu upprunalega.

Verkið var unnið í Stykkishólmi og í Reykjavík í febrúar 2014 og sýnt í Norska Húsinu, Stykkishólmi, 31. maí - 31. ágúst, 2014.

 

Frá hugmynd að veruleika:

Við notuðum tækifærið félagarnir, Helgi Þorgils, Helgi Hjaltalín og undirritaður, okkur til undirbúnings sýningar að heimsækja Norska Húsið í Stykkishólmi seint í júlí 2013. Tilgangurinn var ekki síst að verða fyrir áhrifum og reyna að fá hugmynd að verki sem sýna mætti á fyrirhugaðri sýningu okkar þar, sumarið 2014.

            Allir þrír höfðum við einhverja hugmynd um að reyna að vinna út frá sögu hússins eða safneign þess. Gera verk sem talaði að einhverju leyti við nærumhverfið eða sögu þess. Okkur gafst einnig tækifæri til að heimsækja geymslu safnsins. Þar kenndi ýmissa grasa og efst í kassa framarlega í geymslunni rakst ég á fundargerðar­bók sem vakti strax nokkurn áhuga, ótengdan því að þarna gæti hugmyndin leynst sem leitað væri að. Þetta reyndist vera fundargerðarbók Stúkunnar Helgafell nr. 269. Það sem fyrst og fremst vakti áhugann var sú spennandi leynd sem ríkir yfir fundargerðum liðins tíma, ekki síst í félagsskap sem ég vissi lítil deili á, hvað var starfað og átti sér stað og hver skráði?

            Þessi bók hafði að geyma mikla sögu sem þrátt fyrir stuttann lestur úr, eignaðist stað í huga mér og þegar á reyndi að finna hugmynd og velja úr þeim áhrifum sem ferð okkar og heimsókn átti að skila var mér þessi fundargerðarbók sífellt efst í huga. Sjálfur var ég skáti og man vel þegar ætlast var til að haldinn væri fundargerðarbók, þar sem allt skyldi skráð hversu merkilegt sem það kynni að vera. Skráð var af samviskusemi, ekki man ég svo gjörla hvort við gerðum okkur endilega grein fyrir því að skráð væri fyrir framtíðina að lesa úr eða hvort þetta var einungis hluti af ritúalinu. Ekki er mér heldur ljóst hvort fundarritarar Helgafells nr. 269, voru þess meðvitaðir að ef til vill ætti framtíðin eftir að skyggnast í gamlar fundargerðir þeirra. Það er þó í það minnsta orðin raunin nú.

 

Mér var það ekki ljóst í fyrstu hvað og hvernig ég gæti unnið með þetta efni. Fundargerðarbókin sjálf er fallegur hlutur, snjáð og slitin af áratugalangri notkun. Margir ritarar hafa verið til kallaðir í gegnum tíðina hver með sinn stíl og rithönd.

Að endingu ákvað ég að velja nokkrar fundargerðir og endurrita þær með vatnslit á stórar arkir. Ég hafði áður unnið stórar myndaraðir á svipaðann hátt, einmitt þar sem gamall texti var endurritaður og brugðið nýju myndlistarlegu ljósi á hann.

 

·      Seilst er í söguna og hún endurrituð eða endursögð á nýjan hátt.

·      En er það hægt? Og ef svo, hvernig er hægt að kalla fram hluti sem gerðust fyrir áratugum síðan?

·      Verður það nokkurn tímann annað en líkt því að gripið sé í söguna eitt andartak og henni síðan sleppt jafnóðum?

·      Hver getur mögulega verið hinn sýnilegi ávinningur slíkra gjörða?

·      Það er eðli sögunnar að eiga sitt líf sem heldur áfram og því er allt inngrip í hana því marki brennt að þegar takinu er sleppt er sagan orðin önnur en þegar gripið var til hennar. Verður það svo, ef seilst er langt aftur í tímann líka og hverju fáum við breytt, eða er það ef til vill eingöngu við, sem sitjum eftir með núning eða dæld sem flokkast gæti sem breyting á okkar eigin sögu, okkur sjálfum?

·      Hvernig parast það svo við stóra samhengið þegar allt kemur til alls?

·      Hvers vegna þessi löngun að seilast aftur í tímann? Er það hrein fortíðarþrá eða getur verið að það sé örþrifaráð eftir staðfestingu á nútímanum, að spegla hann í því sem þegar er orðið? Því sem við teljum okkur kunna svo góð skil á, vegna þess að við höfum lifað og lært það sem á undan er gengið.

·      En hvað höfum við lifað og lært? Hvað hefur breyst?

 

Hér á eftir fer tilraun til að grípa inn í söguna, edurupplifa hana, en jafnframt það, að verða að sleppa takinu jafnharðan og hendi festir á.

 

Birgir Snæbjörn Birgisson mars 2014