Birgir Snæbjörn Birgisson er íslenskur myndlistarmaður sem fæddist árið 1966 á Akureyri. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og við Ecole Des Arts Decoratifs í Strasbourg í Frakklandi. Birgir hefur verið virkur þátttakandi í íslenskri samtímalist allt síðan að námi lauk. Verk hans eru fjölbreytt, málverk, ljósmyndir og innsetningar. Birgir hefur sýnt víða bæði á Íslandi og erlendis. Fjölmörg söfn og einkaaðilar eru eigendur verka hans, meðal annars: Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Íslands, Listasafnið á Akureyri, Listasafn Háskóla íslands, Safn, Listasafn Skúla Gunnlaugssonar, Listasafn Icelandair, North Dakota Museum of Art US og fleiri. Birgir er eigandi og rekur Gallerí Skilti. Hann hefur sinnt stundarkennslu við Listaháskóla Íslands og Myndlistarskólann í Reykjavík. Hann er félagi í Nýlistasafni Íslands og Sím, sambandi íslenskra myndlistarmanna.